Finn þefinn af titlum

Daniel Alves kyssir merki Barcelona þegar hann var kynntur í …
Daniel Alves kyssir merki Barcelona þegar hann var kynntur í dag. AFP

Brasilíski reynsluboltinn Daniel Alves var formlega kynntur sem nýr leikmaður spænska knattspyrnufélagsins Barcelona í dag á Camp Nou-leikvanginum.

Alves, sem er 38 ára gamall, hefur hafið æfingar með Börsungum en fær þó ekki leikheimild með liðinu fyrr en í janúar.

Hann lék með Barcelona frá árinu 2008 til 2016 og vann þar alls 23 titla.

Alves hefur síður en svo gleymt því og brá á leik þegar hann gekk á völlinn á Camp Nou er hann var kynntur í dag.

„Þetta lyktar eins og Camp Nou. Lyktar eins og titlar. Þetta lyktar eins og verðlaunagripir,“ sagði Alves er hann reif upp gras af vellinum og þefaði af.

Alves mun klæðast treyju númer 8 í endurkomunni, sem spænska goðsögnin Andrés Iniesta klæddist um langt skeið. Landi Alves sem nú leikur með Juventus, Arthur Melo, klæddist henni síðast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert