Bayern München frá Þýskalandi sigraði Lyon frá Frakklandi 1:0 í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í München í kvöld.
Saki Kumagai skoraði sigurmark leiksins á 69. mínútu en fyrir leikinn var Lyon taplaust á toppi riðilsins. Glódís Perla Viggósdóttir kom inn á sem varamaður á 81. mínútu en Karólína Lea Vilhjálmsdóttir sat allan leikinn á varamannabekk Bayern.
Þrátt fyrir tapið er Lyon enn í toppsæti D-riðilsins með níu stig. Bayern kemur næst á eftir þeim með sjö stig og Benfica og Häcken eru svo í þriðja og fjórða sæti en þau mættust fyrr í dag.
Í C-riðli sigraði enska liðið Arsenal dönsku meistarana HB Köge þægilega 3:0 í London. Caitlin Foord kom Arsenal yfir á 15. mínútu og þannig var staðan allt þangað til á 83. mínútu. Þá tvöfaldaði Lotte Wubben-Moy forustuna áður en Vivianne Miedema skoraði þriðja markið á 88. mínútu.
Barcelona er með fullt hús stiga á toppi riðilsins eftir fjóra leiki. Arsenal er í 2. sæti með níu stig, Hoffenheim í þriðja sætinu með þrjú stig og HB Köge rekur lestina án stiga.