Dagný Brynjarsdóttir og liðsfélagar hennar í West Ham sigruðu Birmingham örugglega 4:0 í riðlakeppni enska deildabikarsins í knattspyrnu í kvöld.
Dagný lék allan leikinn fyrir West Ham en náði þó ekki að komast á blað.
West Ham komst yfir á 36. mínútu þegar Louise Quinn skoraði sjálfsmark. Claudia Walker tvöfaldaði svo forystuna fyrir hálfleik en þær Lucy Parker og Katerina Svitková bættu við mörkum í seinni hálfleik.
West Ham hefur unnið báða leiki sína í E-riðli og hefur ekki enn fengið á sig mark. Brighton og London City eru með þrjú stig í 2.-3. sæti en Birmingham er á botninum án stiga.