Amanda Andradóttir, leikmaður norska knattspyrnufélagsins Vålerenga og íslenska kvennalandsliðsins, hefur verið valin besti ungi leikmaðurinn hjá félaginu.
Frá þessu var greint á Instagram-aðgangi félagsins í gær þar sem einnig var tilkynnt um besta leikmann, markadrottningu og besta leikmanninnn að mati leikmannanna sjálfra.
Amanda er aðeins 17 ára gömul og verður 18 ára í desember.
Hún lék 15 leiki með Vålerenga á tímabilinu og skoraði í þeim fjögur mörk. Þá lék hún sína fyrstu A-landsleiki í haust þegar hún kom inn á sem varamaður gegn Hollandi í september og lék allan leikinn gegn Kýpur í október í undankeppni HM 2023.