Endurtekinn leikur verður aftur endurtekinn

Jökull Andrésson lék með Exeter City á síðasta tímabili.
Jökull Andrésson lék með Exeter City á síðasta tímabili. Ljósmynd/Exeter

Leik Exeter City og Bradford í fyrstu umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu karla þarf að spila aftur eftir að Exeter gerði sex skiptingar, einni of mikið, í sigri Exeter í framlengingu í endurteknum leik á þriðjudagskvöld.

Þann 6. nóvember gerðu liðin jafntefli og því þurfti að endurtaka leikinn og fór sá leikur fram á þriðjudaginn. Exeter vann endurtekna leikinn 3:0 eftir framlengingu í kjölfar þess að staðan var markalaus að loknum venjulegum leiktíma.

Í framlengingunni gerði Exeter sína sjöttu skiptingu en í reglum enska knattspyrnusambandsins segir að fimm skiptingar megi gera að hámarki, þar með talið í framlengingu, í keppninni. Liðin þurfa því að mætast þriðja sinni.

Þriðji leikurinn fer fram þann 30. nóvember og sigurvegari einvígisins mætir Cambridge United í annarri umferð bikarkeppninnar þann 4. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert