„Fannst við eiga meira skilið“

Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og Heiðdís Lillýjardóttir að leik loknum í …
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og Heiðdís Lillýjardóttir að leik loknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Arnarsson þjálfari Breiðabliks og Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði sátu fyrir svörum á blaðamannafundi eftir 2:0 tap gegn úkraínska liðinu Kharkiv í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Þetta var virkilega pirrandi, maður er bara fúll og svekktur. Ef maður horfir á frammistöðuna fannst mér við spila vel á köflum og eiga skilið meira úr þessum leik. Við fengum tækifæri sem við hefðum getað nýtt betur á meðan þær fá tvær skyndisóknir og nýta þær. Það er bara það sem skilur á milli í þessum leik,“ sagði Ásta.

Ásta Eir Árnadóttir, til vinstri, í leik með Breiðabliki gegn …
Ásta Eir Árnadóttir, til vinstri, í leik með Breiðabliki gegn Fylki. mbl.is/Árni Sæberg

Ásmundur tók í sama streng.

„Það sem við lögðum upp með var að ganga þokkalega á köflum. Við héldum miklu betur í boltann, stjórnuðum leiknum á köflum, sköpuðum möguleika en það vantaði herslumuninn. Það var kannski sér í lagi í fyrri hálfleik sem það voru fínir möguleikar til að skora og ég held að ef við hefðum náð að skora á undan hefðum við séð aðra þróun á leiknum. Við töluðum fyrir leikinn að þetta væri gott lið sem myndi nýta sína sénsa og það var akkúrat það sem gerðist.“

Þetta var annar leikur liðanna á rúmri viku. Ásmundur segist hafa séð ákveðinn mun á milli leikja.

„Úti í Úkraínu spiluðum við miklu áhættuminni leik. Vorum aftar á vellinum og vildum reyna að sækja hratt á þær. Við reyndum að vera framar á vellinum núna, pressa þær hærra og ná betri tökum á boltanum til að búa til færi. Leikirnir tveir eru svart og hvítt hvað þetta varðar, okkur gekk mjög illa að halda boltanum úti, náðum varla að tengja tvær sendingar á milli. Það var miklu betra núna. Það eru fullt af hlutum sem við sjáumst breytast á milli leikja en niðurstaðan er engu að síður svekkjandi.“

Kharkiv skoruðu fyrra mark sitt rétt fyrir hálfleik. Ásmundur segir það vissulega hafa áhrif á hálfleiksræðuna.

„Auðvitað er það mjög svekkjandi tímapunktur til að fá á sig mark. Við þurfum að reyna að líta á hvað var að ganga upp og hvað ekki og reyna að ná betri seinni hálfleik. Það er alltaf fúlt að fá á sig mark en þetta er sérstaklega slæmur tímapunktur.“

Ásta sagði lið sitt hafa verið sáttar með stigið í Úkraínu en verulega svekktar með tapið í kvöld.

„Eftir síðasta leik vorum við sáttar með stigið af því að við vorum ekki nógu góðar í þeim leik. En í kvöld er ég mjög svekkt að hafa ekki fengið neitt úr þessum leik. Að fá bara eitt stig á móti þessu liði er slæmt, þetta var liðið sem við áttum að geta gert eitthvað gegn.“

Framherjinn Tiffany McCarty sat allan leikinn á varamannabekknum þrátt fyrir að Breiðabliki hafi vantað mark.

„Við vildum fá meiri kraft og hraða upp á topp því það var mikið svæði á bakvið vörnina. Hennar kostir eru frekar inni í teignum og að nýta það sem fellur til þar. Hingað til í mótinu höfum við varla komist í þá stöðu þannig að við vildum meiri kraft og hraða til að skapa færin þannig,“ sagði Ásmundur.

Ásmundur Arnarsson.
Ásmundur Arnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert