„Okkar besti leikur í riðlakeppninni“

Agla María Albertsdóttir í baráttunni í leiknum í kvöld.
Agla María Albertsdóttir í baráttunni í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Arnarsson þjálfari Breiðabliks og Ásta Eir Árnadóttir fyrirliði sátu fyrir svörum á blaðamannafundi eftir 2:0 tap gegn úkraínska liðinu Kharkiv í Meistaradeild kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við megum ekki dvelja á þessu of lengi, við verðum bara að taka það jákvæða úr þessum leik. Það var mikil bæting á milli þessara tveggja leikja við Kharkiv og þetta var okkar besti leikur í riðlakeppninni, hvað varðar að halda boltanum og allt svoleiðis. Við gerðum það sem við vorum að æfa síðastliðna viku og ég er ánægð með það. Við komum mun betur inn í þennan leik heldur enn þann síðasta,“ sagði Ásta Eir.

Ásmundur gerði einungis tvær breytingar í leiknum og komu þær ekki fyrr en á 79. mínútu. Hann segist eiga eftir að skoða hvort það hafi verið mistök.

„Ég á eftir að kryfja það betur, það er eitthvað sem maður skoðar alltaf eftir á. Átti maður að breyta fyrr? Hefði það breytt einhverju? Hvaða möguleikar voru í boði? Maður endurskoðar þetta alltaf eftir á og akkúrat í augnablikinu var þetta það sem okkur fannst réttast að gera.“

Ásmundur Arnarsson
Ásmundur Arnarsson Eggert Jóhannesson

Nánast tveir mánuðir eru síðan Íslandsmótið kláraðist. Ásmundur segir leikæfinguna ekki hafa verið vandamál í kvöld.

„Partur af hópnum er að taka þátt í leikjum með landsliðinu, parti reynum við að halda á tánum hér með æfingaleikjum. Mér finnst stelpurnar vera að halda ótrúlega vel út. Þetta hefur verið langt og strangt mót hjá þeim sem framlengist með þessum hætti. Ég gat ekki séð að það vantaði leikæfinguna inná vellinum í dag, það var hitt liðið sem var dottið í krampa þegar líða fór á leikinn svo mér fannst það ekki vera það sem háði okkur.“

Ásta var svekkt að liðið skyldi ekki nýta færin sín og segir leikinn hafa getað farið á annan veg ef þær hefðu skorað fyrst.

„Það var eiginlega vitað að liðið sem myndi skora fyrst myndi vinna leikinn. Við þurfum bara að brjóta þennan ís, að skora mark í þessari keppni. Það eru tveir erfiðir leikir framundan en það er alveg hægt að skora mark í þeim. Við fengum færi í öllum leikjunum sem við höfum spilað en það vantar bara eitthvað örlítið upp á. Ég veit ekki hvort það sé eitthvað sjálfstraust eða bara óheppni.“

Breiðablik á eftir að spila tvo leiki í keppninni. Heimaleik gegn Real Madrid og útileik gegn PSG.

„Í næstu viku fara sumar í landsliðsverkefni og við reynum að halda hinum á tánum. Svo skoðum við hvernig við mætum þessum liðum. Miðað við fyrri leikina þurfum við að vera þéttar í vörn en samt sem áður er ég sammála Ástu að markmiðið núna hlýtur að vera að brjóta ísinn og skora mark. Við þurfum líka að nýta augnablikið sem þessi keppni er. Þetta er risastór vettvangur og risa stór keppni. Við þurfum að halda áfram þó staðan sé eins og hún er og reyna að fá sem mest út úr þessu, fyrir alla aðila. Þetta fer allt í reynslubankann.“

Kristín Dís Árnadóttir og Ásta Eir Árnadóttir
Kristín Dís Árnadóttir og Ásta Eir Árnadóttir mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert