Xavi er mættur aftur. Með hann sem þjálfara vill Barcelona endurlífga gullaldarskeið félagsins. Þökk sé tækni hans og yfirsýn var Xavi heimsklassaleikmaður sem lék með hag liðsins í huga. Hann studdi við liðsfélaga sína sem miðstöð spils, hann setti sviðið á nákvæman hátt, hann fann alltaf lausnir. Það virtist ómögulegt að aðskilja hann frá boltanum, jafnvel þótt hann væri umkringdur andstæðingum.
Þegar Xavi var upp á sitt besta var spænska landsliðið nánast ósigrandi þar sem þeir urðu Evrópumeistarar, heimsmeistarar og aftur Evrópumeistarar í röð. Í úrslitaleikjum EM árin 2008 og 2012 lagði hann upp fjögur mörk. Á þessu skeiði drottnaði hann yfir Meistaradeild Evrópu með Barcelona þar sem hann vann keppnina tvisvar og komst einnig í undanúrslit á þessum fjórum árum. „Þetta var besta lið sem við höfum nokkru sinni mætt,“ sagði Sir Alex Ferguson, þáverandi þjálfari Manchester United, nokkrum árum eftir að liðið tapaði úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2011, þegar Tiki Taka-fótboltinn var á hápunkti sínum.
Á miðjunni studdi Xavi fullkomlega við Andrés Iniesta. Xavi lét allt tikka og Iniesta rak boltann áfram. Þeir tveir skiptu verkum á milli sín á svipaðan hátt og Luka Modric og Toni Kroos hjá Real Madríd, sem tók við af Barcelona sem viðmiðið í félagafótbolta. Xavi deilir einnig með Kroos miklum gæðum í löngum sendingum.
Xavi passaði fullkomlega inn í hugmyndafræði Barcelona. Undir handleiðslu Pep Guardiola endurspegluðu þeir Xavi, Iniesta, Puyol og Messi, bestu knattspyrnumenn heims á þessum tíma, þá sýn Guardiola að allir geti gert allt. Í sameiningu færðu þeir jafnvægið á milli sóknar og varnar á nýtt stig. Líkamsstærð skipti ekki öllu máli, ekki einu sinni í sókn og vörn.
Á þessum tíma hefði ég getað skipt yfir til Barcelona. Það hefði verið frábær reynsla að fá að vera á vellinum með þessum goðsögnum. Ég lít til baka með tár á hvarmi en einnig bros. Sem strákur frá München vildi ég gjarna vinna Meistaradeildina með félaginu mínu, Bayern. Ég hefði aldrei fyrirgefið sjálfum mér ef ég hefði ekki verið hjá félaginu þegar við unnum keppnina á Wembley árið 2013. Á þeim tíma var Barcelona fyrirmynd alls heimsins á öðru sviði: félagið var með UNICEF sem auglýsingu á treyjunni sinni.
Nú eru breyttir tímar. Leikmenn eru jafnvel enn mikilvægari en áður þegar kemur að því að knýja fram úrslit. Barcelona vann síðast Meistaradeildina árið 2015. Síðan þá hefur liðið ekki komist í úrslitaleikinn og þess í stað minnist fólk stórra tapa: 2:8 gegn Bayern München, 0:4 í Liverpool, 0:3 í Róm, 1:4 gegn París og nú nýlega 0:3 í Lissabon. Það er gallinn við þessa tegund fótbolta, sem krefst bestu mögulegu tækni og gífurlegra knattspyrnugáfna allra sem eiga í hlut, en um leið er líkamlegt atgervi ekki í forgangi. Þetta getur stundum sprungið í andlitið á liðum.
Það sem áður vakti hrifningu við Barcelona hefur minnkað og spurningar hafa vaknað um áherslu Barca á að stjórna leikjum og halda boltanum 70 prósent leiktímans eða lengur. Strax árin 2010 og 2012 tókst Inter Mílanó og Chelsea að múra fyrir mörk sín og slá Barcelona út í undanúrslitum í báðum tilvikum. Í dag hafa öll þessi lið leikaðferðina sem snýr að því að „hafa alla fyrir aftan boltann“ fullkomlega á hreinu. Það eina sem virkar oft gegn henni eru mörk sem krefjast styrks í líkamlegum þáttum – föstum leikatriðum, skyndisóknum og annarra harðgerðari lausna í þeim dúr.
Fótboltinn er orðinn hraðari, kröftugri og líkamlegri. Meira að segja Guardiola hefur aðlagast í Manchester, fínstillt spilamennska liðs hans er enn auðsjáanleg en hann lætur það spila meiri varnarleik. Í nútímanum eru nýjar söguhetjur í aðalhlutverki á vellinum: Trent Alexander-Arnold, Paul Pogba, Vinícius Júnior, Alphonso Davies eða Erling Haaland – allt eru þetta íþróttamenn sem eru líkari Usain Bolt heldur en hinum 170 sentimetra háa Xavi.
Í níunda pistli sínum í dag fjallar Lahm um Xavi Hernández, nýráðinn knattspyrnustjóra Barcelona, og þau erfiðu verkefni sem bíða hans hjá uppeldisfélaginu.
Pistilinn má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.