Ákærður fyrir tilraun til manndráps

Quincy Promes leikur nú í Rússlandi með Spartak Moskvu.
Quincy Promes leikur nú í Rússlandi með Spartak Moskvu. AFP

Hollenski knattspyrnumaðurinn Quincy Promes hefur verið ákærður fyrir tilraun til manndráps og líkamsárás. Honum er gefið að sök að hafa stungið frænda sinn í fjölskylduboði í Hollandi sumarið 2020.

Promes var handtekinn í desember á síðasta ári og dvaldi í fangelsi í tvo daga á meðan lögreglan í Amsterdam yfirheyrði hann í kjölfar þess að frændi hans lagði inn kvörtun til lögreglunnar.

Í vikunni ákváðu saksóknarar þar í borg að leggja fram ákæru á hendur Promes.

Þolandinn varð fyrir alvarlegum áverkum á hnéi, þar sem Promes er sagður hafa stungið hann eftir að rifrildi braust út á milli þeirra.

Promes, sem er 29 ára gamall vængmaður, leikur nú með Spartak Moskvu eftir að hafa verið keyptur frá Ajax í Amsterdam í febrúar á þessu ári.

Hann hefur alfarið neitað sök í málinu. Ekki er búið að ákveða hvenær réttarhöld í málinu fara fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert