Þótt Íslendingaliðinu Augsburg hafi ekki gengið vel í þýsku bundesligunni í knattspyrnu á tímabilinu tókst liðinu engu að síður að vinna eitt allra sterkasta lið Evrópu í kvöld.
Augsburg fékk þýsku meistarana og nágranna sína í Bayern München í heimsókn í deildinni í kvöld og Augsburg vann 2:1 þótt liðið væri án Alfreðs Finnbogasonar sem gat ekki leikið vegna veikinda.
Mads Pedersen og Andre Hahn komu Augsburg í 2:0 í fyrri hálfleik og fyrir hlé minnkaði markahrókurinn Robert Lewandowski muninn fyrir Bayern.
Augsburg tókst að halda út í síðari hálfleik og tryggja sér þrjú óvænt stig sem komu liðinu af fallsvæðinu og upp í 15. sæti. Bayern München er ekki einungis á toppnum í Þýskalandi heldur hefur liðið einnig verið eitt albesta liðið í Meistaradeild Evrópu til þessa á tímabilinu. Bayern hefur fjögurra stiga forskot í efsta sæti deildarinnar.