Íþróttablaðamaðurinn Romain Molina greindi frá ýmsu hræðilegu í beinni útsendingu á Twitteraðgangi sínum seint í gærkvöldi.
Molina segist vera að vinna að stærðarinnar skýrslu þar sem hann ljóstrar upp um myrkar hliðar knattspyrnunnar. Hann áætlar að hún komi út í mars eða apríl á næsta ári og mun vinna með Washington Post og ESPN að skrifum hennar.
Á „Spaces“ á Twitter í gær, sem er sambærilegt „Facebook live“ á þeim miðli, veitti hann smjörþef af því sem hann mun koma til með að ljóstra upp um á ítarlegri hátt.
Á meðal þess sem Molina greindi frá í gærkvöldi var að Ferland Mendy, bakvörður Real Madríd og franska landsliðsins, hafi sparkað endurtekið í höfuð konu og sýnt henni getnaðarlim sinn í hennar óþökk. Konan hafi orðið fyrir heilaskemmdum vegna árásarinnar.
Hann sagði einnig frá því að Elye Wahi, sóknarmaður Montpellier, var bannaður frá akademíu Caen eftir að hann fékk nemendur í unglingaskóla til þess að fróa sér fyrir framan sig.
Þá sagði hann að stærstu akademíunni í Alþýðulýðveldinu Kongó sé stýrt af barnaníðingahring.
Molina greindi auk þess frá því að fjölskylda ónefndrar knattspyrnukonu hafi selt hana til manns sem hafi beitt hana kynferðisofbeldi, gert hana ólétta og svo neytt í fóstureyðingu.
Í útsendingunni í gær stiklaði hann á stóru en greindi frá gífurlegum fjölda mála þar sem franskir knattspyrnumenn og franska knattspyrnusambandið er sérstaklega áberandi.