Aalesund tryggði sér í dag sæti í efstu deild Noregs í fótbolta með 4:2-heimasigri á Ull/Kisa.
Aalesund er í öðru sæti 1. deildarinnar með 58 stig, fjórum stigum á undan Jerv í þriðja sætinu þegar ein umferð er eftir, en efstu tvö liðin fara beint upp um deild.
Davíð Kristján Ólafsson gulltryggði 4:2-sigur Aalesund með lokamarki leiksins á fjórðu mínútu uppbótartímans með sínu öðru deildarmarki á tímabilinu. Davíð lék allan leikinn.
Aalesund hefur flakkað mikið á milli efstu og næstefstu deildar síðustu tímabil, en liðið féll úr deild þeirra bestu á síðustu leiktíð.