Úrslitin í toppbaráttu sænsku B-deildarinnar í knattspyrnu réðust endanlega í dag. Värnamo hafði nú þegar tryggt sér toppsætið en í dag tryggði Sundsvall sig með þeim upp í úrvalsdeild og Böðvar Böðvarsson og félagar hans í Helsingborg tryggðu sér umspilssæti.
Sundsvall gerði 1:1 jafntefli gegn Östers og tryggði sig þar með upp í úrvalsdeild. Alex Þór Hauksson spilaði allan leikinn fyrir Östers og lagði upp mark Nicolas Mortensen í fyrri hálfleik. Það var svo Erik Andersson sem skoraði markið mikilvæga fyrir Sundsvall.
Böðvar Böðvarsson lék allan leikinn fyrir Helsingborg í 1:1 jafntefli gegn Örgryte. Anthony van den Hurk kom Helsingborg yfir í leiknum en Anton Andreasson jafnaði fyrir Örgryte.
Bjarni Mark Antonsson lék fyrstu 75. mínúturnar með IK Brage í 3:1 sigri gegn toppliði Värnamo. Eins og áður sagði var Värnamo búið að tryggja sér toppsæti deildarinnar fyrir leik. Með sigrinum fór Brage upp í níunda sæti.
Í Danmörku lék Aron Sigurðarson allan leikinn fyrir Horsens í 4:1 sigri gegn Jammerbugt í B-deildinni. Horsens eru í fimmta sæti deildarinnar.