Íslendingaslagur í undanúrslitum

Guðmundur Þórarinsson leikur með New York City.
Guðmundur Þórarinsson leikur með New York City. mbl.is/Eggert Jóhannesson

New York City, lið Guðmundar Þórarinssonar, komst í kvöld í gegnum fyrstu umferðina í úrslitakeppninni um bandaríska meistaratitilinn í knattspyrnu, og þar með er ljóst að Íslendingaliðin mætast í undanúrslitum Austurdeildarinnar.

New York City vann Atlanta á heimavelli í kvöld, 2:0, þar sem Valentin Castellanos og Alexander Callens skoruðu mörkin á fyrstu átta mínútum síðari hálfleiks. Guðmundur var varamaður hjá New York í kvöld og kom ekki við sögu.

New York City komst með því í undanúrslit Austurdeildarinnar og þarf þar að sækja heim lið New England Revolution, sem jafnaldri Guðmundar og samherji úr íslenska landsliðinu, Arnór Ingvi Traustason, leikur með. New England vann yfirburðasigur í Austurdeildinni og sat því hjá í fyrstu umferðinni. 

Sigurliðið í viðureign New England og New York City, sem fram fer að kvöldi 30. nóvember, kemst í úrslitaleik Austurdeildarinnar. Liðið sem vinnur þann leik spilar síðan til úrslita við sigurvegara Vesturdeildarinnar um bandaríska meistaratitilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert