Elías spilaði sig ekki út úr liðinu

Elías Rafn Ólafsson í leik Íslands og Norður-Makedóníu á dögunum.
Elías Rafn Ólafsson í leik Íslands og Norður-Makedóníu á dögunum. Ljósmynd/Robert Spasovski

Bo Henriksen, þjálfari danska meistaraliðsins Midtjylland og fyrrverandi leikmaður Fram, Vals og ÍBV, segir að Jonas Lössl hafi stigið skref framfyrir Elías Rafn Ólafsson á ný síðustu vikurnar og hafi því varið mark liðsins þegar það mætti Bröndby í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Elías Rafn fékk tækifæri í haust þegar Lössl meiddist og nýtti það vel. Hann hafði leikið síðustu átta leiki í deildinni, auk Evrópuleikja, og Lössl hafði mátt sætta sig við að sitja á bekknum fyrst í stað eftir að hann hafði jafnað sig af meiðslunum.

„Ég skipti um markvörð því Lössl hefur verið betri síðustu vikur. Þannig er þetta með alla leikmenn í hópnum, hvort sem það er hægri bakvörðurinn eða vinstri bakvörðurinn, þeir eru verðlaunaðir fyrir sína frammistöðu. Elías spilaði sig ekki út úr liðinu en Lössl spilaði sig inn í liðið. Það er frábært að vera með svona samkeppni," sagði Henriksen við bold.dk.

Midtjylland mætir Braga frá Portúgal í Evrópudeildinni á fimmtudaginn en Henriksen kvaðst ekki vera búinn að ákveða hver yrði í markinu í þeim leik. „Við metum stöðuna frá degi til dags og það kemur bara í ljós hver spilar á fimmtudaginn," sagði Henriksen.

Midtjylland er með fjögurra stiga forskot á FC Köbenhavn á toppi úrvalsdeildarinnar þrátt fyrir 1:2 ósigur gegn Bröndby í gær. Af sextán leikjum liðsins í deildinni á tímabilinu hefur Elías verið í markinu í níu leikjum og hinn 32 ára gamli Lössl, sem áður lék m.a. með Everton, Huddersfield og Mainz, hefur verið á milli stanganna í sjö leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert