Sergio Ramos er í leikmannahóp París SG sem heimsækir Manchester City í A-riðli Meistaradeildarinnar í knattspyrnu á Etihad-völlinn í Manchester á miðvikudaginn kemur. Það er RMC Sport sem greinir frá þessu.
Ramos, sem er 35 ára gamall, gekk til liðs við franska stórliðið frá Real Madrid í sumar á frjálsri sölu eftir að samningur hans á Spáni rann út.
Varnarmaðurinn hefur ekkert komið við sögu hjá París SG á tímabilinu vegna meiðsla en franskir fjölmiðlar greindu frá því í byrjun mánaðarins að félagið íhugaði að rifta samningi sínum við miðvörðinn.
City og París SG eru í harðri baráttu um efsta sæti riðilsins en City er með 9 stig í efsta sætinu og París SG er í öðru sætinu með 8 stig.