Dæmir hjá Íslendingum í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar

Helgi Mikael Jónasson milliríkjadómari.
Helgi Mikael Jónasson milliríkjadómari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helgi Mikael Jónasson dæmir á fimmtudagskvöldið leik í riðlakeppni Sambandsdeild karla í fótbolta sem fram fer á Gíbraltar.

Þar leikur meistaralið Gíbraltar, Lincoln Red Imps, gegn FC Köbenhavn frá Danmörku en í liði FCK eru þrír ungir íslenskir leikmenn, Ísak Bergmann Jóhannesson, Andri Fannar Baldursson og Hákon Arnar Haraldsson, og sá fjórði, Orri Steinn Óskarsson, er nálægt aðalliðshópnum.

Gylfi Már Sigurðsson og Þórður Arnar Árnason verða aðstoðardómarar og fjórði dómari leiksins verður Vilhjálmur Alvar Þórarinsson.

FC Köbenhavn stendur vel að vígi í riðlinum en liðið er með 9 stig, Slovan Bratislava og PAOK eru með 7 stig og Lincoln Red Imps er án stiga á botninum eftir fjórar umferðir. Sigur á Gíbraltar myndi tryggja FCK sæti í 16-liða úrslitum keppninnar.

Þó Lincoln Red Imps hafi tapað öllum sínum leikjum í riðlakeppninni hefur framganga liðsins vakið mikla athygli en lið frá Gíbraltar hefur aldrei áður náð svona langt í Evrópukeppni. Liðið sló út Riga frá Lettlandi í umspili um sæti í riðlakeppninni og hafði áður unnið Fola Esch frá Lúxemborg í fyrstu umferð Meistaradeildar en tapað fyrir CFR Cluj frá Rúmeníu í annarri umferð Evrópudeildar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert