Ótrúleg úrslit

Thomas Tuchel var sáttur með lærisveina sína í kvöld.
Thomas Tuchel var sáttur með lærisveina sína í kvöld. AFP

„Þetta var frábær frammistaða hjá öllu liðinu og ótrúleg úrslit,“ sagði Thomas Thuchel, knattspyrnustjóri Chelsea, eftir 4:0-stórsigur Chelsea gegn Juventus í H-riðli Meistaradeildarinnar á Stamford Bridge í London í kvöld.

Chelsea er öruggt með sæti í sextán liða úrslitum keppninnar eftir sigur kvöldsins en liðið heimsækir Zenit frá Pétursborg í lokaumferðinni og getur með sigri tryggt sér efsta sæti riðilsins.

„Við þurftum að vera þolinmóðir en á sama tíma ætluðum við ekki að sofna á verðinum,“ sagði Thuchel.

„Markmiðið var að auka hraðann í leiknum hægt og rólega og það tókst. Það er erfitt að skapa sér marktækifæri í fótbolta en við vorum ótrúlegir sóknarlega og varnarlega í kvöld.

Við vorum mun beinskeyttari núna en í fyrri leiknum í Tórínó og við þorðum að taka áhættu. Við hreyfðum okkur vel án boltans og skoruðum frábær mörk.

Ég er mjög meðvitaður um alla þá vinnu sem leikmennirnir lögðu á sig í kvöld og ég gæti ekki verið ánægðari með frammistöðuna,“ bætti Tuchel við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert