„Við komum hingað til þess að sækja stigin þrjú og við höfðum trú á verkefninu allan tímann,“ sagði Michael Carrick, bráðabirgðastjóri Manchester United, eftir 2:0-sigur liðsins gegn Villarreal í F-riðli Meistaradeildarinnar á Spáni í kvöld.
Carrick var að stýra sínum fyrsta leik sem stjóri United en sigurinn þýðir að United er komið áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.
„Þetta var ekki auðveldasti leikur sem við höfum spilað og úrslitin gefa ekki alveg rétta mynd af því hvernig leikurinn spilaðist,“ sagði Carrick.
„Við vorum ekki að hugsa um að spila fallegan fótbolta heldur fyrst og fremst að ná í úrslit. Ég er líka mjög ánægður með varamennina sem komu inn af bekknum og breyttu gangi mála.
Ronaldo skorar þegar hann fær færi og Jadon Sancho var frábær. Hann vann frábærlega fyrir liðið og ég er mjög ánægður fyrir hans hönd. Þetta var frábært kvöld fyrir hann.
Síðustu dagar hafa verið erfiðir hjá félaginu og við vildum líka ná í úrslit fyrir Ole. Ég er ánægður með dagsverkið og þakklátur á sama tíma,“ bætti Carrick við.