United í 16-liða úrslit

Jadon Sancho gulltryggði United áfram í 16-liða úrslit.
Jadon Sancho gulltryggði United áfram í 16-liða úrslit. AFP

Manchester United er komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir 2:0-útisigur á Villarreal í kvöld.

United er með tíu stig þegar liðið á einn leik eftir í riðlakeppninni á meðan Villarreal er í öðru sæti með sjö. Villarreal getur ekki náð United vegna innbyrðisúrslit á meðan neðsta liðið Young Boys er aðeins með þrjú stig. Atalanta getur enn náð United, en þá myndi enska liðið enda í öðru sæti.

Eftir frekar tíðindalítinn fyrri hálfleik, þar sem Villarreal var sterkari aðilinn, lifnaði leikurinn við á 66. mínútu er þeir Marcus Rashford og Bruno Fernandes komu inn á fyrir Anthony Martial og Donny van de Beek.

Tólf mínútum síðar var Cristiano Ronaldo búinn að koma United yfir eftir að Fred komst inn í sendingu heimamanna og þaðan fór boltinn á Portúgalann sem vippaði skemmtilega yfir markvörð Villarreal og í markið.

Öðrum tólf mínútum síðar lagði Jadon Sancho endahnútinn á skyndisókn með að negla boltann í slánna og inn og þar við sat, en markið var það fyrsta hjá Sancho fyrir United. Mistakist Atalanta að vinna Young Boys síðar í kvöld er United öruggt með efsta sæti F-riðils. 

Villarreal 0:2 Man. Utd opna loka
90. mín. Jadon Sancho (Man. Utd) skorar 0:2 - United er á leiðinni í 16-liða úrslit! Eftir eldsnögga skyndisókn fær Sancho boltann í teignum og hann neglir honum í slánna og í netið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert