Sjö lið gætu í kvöld tryggt sér sæti í sextán liða úrslitum Meistaradeildar karla í fótbolta en fimmta umferðin í fjórum riðlum deildarinnar fer þá fram.
Þessi lið eru Manchester City, París SG, Porto, Dortmund, Sporting Lissabon, Real Madrid og Inter Mílanó.
Manchester City og París SG mætast í stórleik kvöldsins í Manchester en City er með 9 stig, PSG 8, Club Brugge 4 og RB Leipzig eitt í A-riðli. Sigurliðið verður komið áfram og jafnvel bæði, eftir því hvernig viðureign Club Brugge og Leipzig endar.
Lionel Messi hjá PSG mætir þar Pep Guardiola knattspyrnustjóra City en Messi lék undir stjórn Guardiola hjá Barcelona á árum áður. Þá gæti Sergio Ramos leikið sinn fyrsta leik fyrir PSG. City er án Kevin De Bruyne sem greindist með kórónuveiruna.
Liverpool hefur þegar unnið B-riðilinn og er með 12 stig fyrir heimaleik gegn Porto, sem er með 5 stig og í harðri baráttu við Atlético Madrid (4 stig) og AC Milan (1 stig) um annað sæti riðilsins.
Ajax er með fullt hús í C-riðli, 12 stig, og komið áfram og mætir stigalausu liði Besiktas. Hins vegar mætast Sporting Lissabon og Dortmund sem eru með 6 stig hvort og það er nánast hreinn úrslitaleikur um annað sætið. Dortmund vann fyrri leik liðanna 1:0 og stendur því betur að vígi innbyrðis, og væri komið áfram með sigri í kvöld. Sama er að segja ef Sporting vinnur tveggja marka sigur, þá er Sporting komið áfram.
Í D-riðli freistar Real Madrid þess að hefja fyrir einhver óvæntustu úrslit í sögu Meistaradeildarinnar en liðið tapaði á heimavelli fyrir Sheriff frá Moldóvu í haust. Liðin mætast nú í Tiraspol í Moldóvu. Real Madrid er með 9 stig, Inter Mílanó 7, Sheriff 6 og Shakhtar Donetsk 1. Ef allt fer eftir bókinni gulltryggja Real og Inter sig í sextán liða úrslitin með sigrum í kvöld.