„Við hefðum getað gert ýmislegt betur en ég er sáttur með úrslitin,“ sagði Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, eftir 2:0-sigur liðsins gegn Porto í A-riðli Meistaradeildarinnar á Anfield í Liverpool í kvöld.
Liverpool var öruggt með efsta sæti riðilsins og sæti í sextán-liða úrslitum keppninnar fyrir leik kvöldsins en það voru þeir Thiago og Mohamed Salah sem skoruðu mörk Liverpool í leiknum.
„Það var smá hik á okkur sem er eðlilegt þegar þú stillir upp ellefu leikmönnum sem eru ekki vanir að spila saman,“ sagði Klopp.
„Það var uppselt á leikinn og við ætluðum okkur að vinna og sýna góða frammistöðu fyrir stuðningsmennina okkar,“ bætti Klopp við.
Thiago skoraði frábært mark fyrir Liverpool á 52. mínútu en hann lét vaða með laglegu utanfótarskoti af 30 metra færi og boltinn söng í netinu.
„VÁ! Þvílíkt mark hjá Thiago. Kvöldið var mjög jákvætt að öllu leyti. Það fengu margir leikmenn mínútur, menn fengu aukið sjálfstraust og það meiddist enginn. Ég er mjög sáttur,“ bætti Klopp við í samtali við BT Sport.