Midtjylland í harðri toppbaráttu

Gustav Isaksen skorar fyrir Midtjylland í kvöld.
Gustav Isaksen skorar fyrir Midtjylland í kvöld. AFP

Evander reyndist hetja Midtjylland þegar liðið vann 3:2-sigur gegn Braga frá Portúgal í F-riðli Evópudeildarinnar í knattspyrnu í Danmörku í kvöld.

Evander skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma en Erik Sviatchenko kom Midtjylland yfir strax á 2. mínútu áður en Ricardo Horta jafnaði metin fyrir Braga undir lok fyrri hálfleiks.

Gustav Isaksen kom Midtjylland yfir á nýjan leik strax í upphafi síðari hálfleiks áður en Wenderson Galeno jafnaði metin fyrir Braga á 85. mínútu.

Elías Rafn Ólafsson var varamarkvörður hjá Midtjylland í leiknum en liðið er með 8 stig í þriðja sæti riðilsins, stigi minna en Braga og tveimur stigum minna en Rauða stjarnan frá Serbíu.

Í lokaumferð riðlakeppninnar heimsækir Midtjylland botnlið Ludogorets til Búlgaríu og Braga tekur á móti Rauðu stjörnunni.

Þá skoruðu þeir Andriy Yarmalenko og Mark Noble mörk West Ham þegar liðið vann 2:0-útisigur gegn Rapid Vín í Austurríki í H-riðlinum.

Bæði mörkin komu í fyrri hálfleik en West Ham er öruggt með efsta sæti riðilsins og sæti í 32-liða úrslitunum með 13 stig. Dinamo Zagreb kemur þar á eftir með 7 stig, Genk er með 5 stig og Rapid Vín 3 stig.

Mark Noble fagnar marki sínu ásamt Nikola Vlasic.
Mark Noble fagnar marki sínu ásamt Nikola Vlasic. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert