Ættu ekki að klæðast treyjunni framar

Jamie O'Hara vandaði Dele Alli og nokkrum liðsfélaga hans hjá …
Jamie O'Hara vandaði Dele Alli og nokkrum liðsfélaga hans hjá Tottenham ekki kveðjurnar í gærkvöldi. AFP

Jamie O’Hara, fyrrverandi leikmaður Tottenham Hotspur og núverandi sparkspekingur, var ekki sérlega hrifinn af frammistöðu liðsins í 1:2 tapi þess gegn slóvenska liðinu Mura í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi.

Hann tók þar nokkra leikmenn Tottenham sérstaklega fyrir.

„Ég býst við því að utandeildarlið hefði gefið þessu liði almennilegan leik. [Matt]Doherty, [Tanguy] Ndombele, Dele Alli og Davinson Sánchez spiluðu hræðilega og ættu ekki að klæðast treyju Tottenham framar,“ sagði O‘Hara þegar rýnt var í leikinn að honum loknum á Sky Sports í gærkvöldi.

Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, sagði eftir leikinn að frammistaðan hafi verið slæleg en einnig hugarfar leikmanna.

„Eins og staðan er í dag er Totten­ham ekki í háum gæðaflokki og staðan er snú­in. Þetta var slæmt tap og frammistaðan var döp­ur. Við vor­um ekki bara slak­ir frammistöðulega séð held­ur var hug­ar­farið lé­legt líka,” sagði hann meðal annars.

Eftir tapið er Tottenham í öðru sæti G-riðils Sambandsdeildarinnar og þarf á góðum úrslitum að halda gegn toppliði Rennes í lokaumferðinni í desember ætli það sér ekki að missa Vitesse, sem er með jafnmörg stig og Tottenham í þriðja sætinu, fram úr sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert