Jamie O’Hara, fyrrverandi leikmaður Tottenham Hotspur og núverandi sparkspekingur, var ekki sérlega hrifinn af frammistöðu liðsins í 1:2 tapi þess gegn slóvenska liðinu Mura í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi.
Hann tók þar nokkra leikmenn Tottenham sérstaklega fyrir.
„Ég býst við því að utandeildarlið hefði gefið þessu liði almennilegan leik. [Matt]Doherty, [Tanguy] Ndombele, Dele Alli og Davinson Sánchez spiluðu hræðilega og ættu ekki að klæðast treyju Tottenham framar,“ sagði O‘Hara þegar rýnt var í leikinn að honum loknum á Sky Sports í gærkvöldi.
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham, sagði eftir leikinn að frammistaðan hafi verið slæleg en einnig hugarfar leikmanna.
„Eins og staðan er í dag er Tottenham ekki í háum gæðaflokki og staðan er snúin. Þetta var slæmt tap og frammistaðan var döpur. Við vorum ekki bara slakir frammistöðulega séð heldur var hugarfarið lélegt líka,” sagði hann meðal annars.
Eftir tapið er Tottenham í öðru sæti G-riðils Sambandsdeildarinnar og þarf á góðum úrslitum að halda gegn toppliði Rennes í lokaumferðinni í desember ætli það sér ekki að missa Vitesse, sem er með jafnmörg stig og Tottenham í þriðja sætinu, fram úr sér.