Riuler, brasilískur knattspyrnumaður sem var á mála hjá japanska efstu deildar liðinu Shonan Bellmare, fannst látinn á heimili sínu á þriðjudaginn. Hann var aðeins 23 ára gamall.
„Við erum miður okkar að þurfa að tilkynna þessi tíðindi svo skyndilega. Við vottum okkar dýpstu samúð,“ sagði í yfirlýsingu frá Shonan Bellmare.
Samkvæmt fjölmiðlum í Japan fór Riuler í hjartastopp. Hann lætur eftir sig fimm ára dóttur sem býr í heimalandi hans Brasilíu.
„Við viljum votta okkar dýpstu samúð til fjölskyldu og vina Riuler de Oliveira Faustino, sem lést á þriðjudaginn 23. nóvember síðastliðinn,“ sagði í yfirlýsingu frá japönsku efstu deildinni.