Sjö stuðningsmenn pólska knattspyrnuliðsins Legia frá Varsjá voru handteknir eftir leik liðsins við Leicester í Evrópudeildinni í fótbolta í gærkvöldi.
Stuðningsmennirnir slógust við lögregluþjóna á meðan á leik stóð á meðan einhverjir kveiktu á blysum og reyndu að komast til stuðningsmanna Leicester. Þá var fjölmörgum stuðningsmönnum Legia vísað úr stúkunni á meðan á leiknum stóð vegna óeirða.
Tveir lögregluþjónar þurftu aðhlynningu á sjúkrahúsi eftir átökin, en annar þeirra er með heilahristing og hinn úlnliðsbrotinn. Eftir leik þurftu stuðningsmenn Legia að bíða lengi á vellinum, áður en þeir máttu loks yfirgefa svæðið.
Leicester fagnaði 3:1-sigri og fór fyrir vikið upp í toppsæti C-riðils með átta stig. Legia er í botnsætinu með sex stig.