Skoruðu nítján mörk

Belgíska kvennalandsliðið fór á kostum í gærkvöldi.
Belgíska kvennalandsliðið fór á kostum í gærkvöldi. AFP

Belgía átti ekki í mjög miklum vandræðum með Armeníu þegar liðin mættust í undankeppni HM 2023 kvenna í knattspyrnu í gærkvöldi. Belgía vann að lokum 19:0 sigur.

Fyrirliðinn Tessa Wullaert skoraði fimm mörk fyrir heimakonur í Belgíu. Amber Tysiak og Tine De Caigny skoruðu báðar þrennu og Janice Cayman, Hannah Eurlings og Jarne Teulings skoruðu allar tvennu.

Justine Vanhaevermaet og Sarah Wijnants skoruðu hin tvö mörk Belga í F-riðlinum.

Staðan var 11:0 í hálfleik.

Nítján marka sigur Belga er stærsti sigurinn frá upphafi í undankeppni fyrir HM en fjórum sinnum hafa kvennalandslið þó unnið 21:0 sigra, í öll skiptin á 10. áratug síðustu aldar.

Japan vann Gvam 21:0 í vináttulandsleik árið 1997 og Kanada vann Púertó Ríkó með sömu markatölu í lokakeppni Norður- og Mið-Ameríkuríkja árið 1998.

Sama ár vann Nýja-Sjáland 21:0 sigur gegn Samóa-eyjum í lokakeppni Eyjaálfu-ríkja. Í þeirri sömu keppni vann Ástralía með sama mun gegn Amerísku Samóa-eyjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert