Dramatík í riðli Íslands – Ísland getur náð toppsætinu

Frá leik Íslands og Tékklands í síðasta mánuði.
Frá leik Íslands og Tékklands í síðasta mánuði. mbl.is/Unnur Karen

Tékkland og Holland skildu jöfn, 2:2, er þau mættust í C-riðli Íslands í undankeppni heimsmeistaramóts kvenna í fótbolta í dag. Leikurinn átti að fara fram í gær en var frestað vegna mikillar snjókomu.

Katerina Svitková kom Tékklandi yfir með eina marki fyrri hálfleiks á 11. mínútu. Danielle van de Donk jafnaði á 51. mínútu en Simona Necidova kom Tékkum aftur yfir níu mínútum síðar.

Þegar allt stefndi í óvæntan tékkneskan sigur jafnaði Stefanie Van der Gragt fyrir Evrópumeistarana á þriðju mínútu í uppbótartíma.

Úrslitin þýða að Holland er í toppsæti riðilsins með ellefu stig eftir fimm leiki. Ísland er í öðru með sex stig eftir þrjá leiki og Tékkland í þriðja með fimm eftir fjóra leiki.

Ísland getur því náð toppsæti riðilsins, vinni liðið þá leiki sem það á inni. Ísland mætir Kýpur á útivelli á þriðjudag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert