Bayern München er áfram með eins stigs forskot á toppi þýsku 1. deildarinnar í fótbolta eftir nauman 1:0-sigur á Arminia Bielefeld á heimavelli í kvöld.
Leroy Sané skoraði sigurmarkið á 71. mínútu eftir stoðsendingu frá Thomas Müller. Sigurinn var kærkominn fyrir Bayern sem tapaði óvænt fyrir Augsburg í síðustu umferð. Þýskalandsmeistararnir eru með 31 stig eftir 13 leiki.
Dortmund kemur fast á hæla Bayern með 30 stig eftir 3:1-útisigur á Wolfsburg. Wout Weghorst kom Wolfsburg yfir strax á 2. mínútu en Emre Can jafnaði úr víti og var staðan í hálfleik 1:1.
Dortmund var sterkari aðilinn í seinni hálfleik og Donyell Malen kom liðinu yfir á 55. mínútu. Norski markahrókurinn Erling Braut Haaland kom inn á sem varamaður á 73. mínútu og sjö mínútum síðar gulltryggði hann tveggja marka sigur.
Haaland var að leika sinn fyrsta leik í rúman mánuð en hann hefur verið frá keppni vegna meiðsla.