Barcelona vann sterkan 3:1-útisigur á Villarreal í spænsku 1. deildinni í fótbolta í kvöld. Liðið hefur nú unnið báða leiki sína eftir að goðsögn félagsins Xavi tók við af Ronald Koeman.
Eftir markalausan fyrri hálfleik kom Frenkie de Jong Barcelona yfir á 48. mínútu og var staðan 1:0 fram að 76. mínútu er Samuel Chukwueze jafnaði.
Stefndi í 1:1-jafntefli en Memphis Depay kom Barcelona aftur yfir á 88. mínútu og varamaðurinn Philippe Coutinho gulltryggði 3:1-sigur með marki úr víti í uppbótartíma.
Þrátt fyrir tvo sigra í röð er Barcelona í sjöunda sæti með 23 stig, sjö stigum á eftir toppliði Real Madrid sem á auk þess leik til góða.