Landsliðsmennirnir Albert Guðmundsson og Alfons Sampsted eru komnir með liðum sínum, AZ Alkmaar frá Hollandi og Bodö/Glimt frá Noregi, í útsláttarkeppni Sambandsdeildar Evrópu.
Lokaumferðinni í riðlum A, B, C og D var að ljúka. AZ Alkmaar hafði þegar tryggt sér sigur í D-riðli og vann Randers frá Danmörku, 1:0. Albert lék allan leikinn með AZ sem tapaði ekki leik, fékk 14 stig og vann riðilinn með yfirburðum.
CFR Cluj frá Rúmeníu vann Jablonec frá Tékklandi 2:0 í sama riðli en Rúnar Már Sigurjónsson sat þar á varamannabekk CFR allan tímann. Það var eini sigur CFR í riðlinum. Randers komst áfram með 7 stig, Jablonec fékk 6 og CFR 4.
AZ fer því beint í 16 liða úrslit Sambandsdeildarinnar en Randers fer í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar. Í henni leika liðin átta sem eru í öðru sæti riðla Sambandsdeildar og liðin átta sem enda í þriðja sæti riðla Evrópudeildar.
Alfons lék allan leikinn með Bodö/Glimt sem gerði góða ferð til Úkraínu og gerði þar jafntefli, 1:1, við Zorya Luhansk. Roma vann CSKA Sofia 3:2 og varð þar með efst í C-riðlinum með 13 stig og fer beint í 16-liða úrslit. Bodö/Glimt fékk 12 stig í öðru sæti og fer í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar en með sigri í leiknum í kvöld hefði liðið farið beint í 16-liða úrslit.
LASK Linz frá Austurríki og Gent frá Belgíu eru komin í 16-liða úrslit eins og AZ og Roma en Maccabi Tel Aviv og Partizan Belgrad fara í 1. umferðina eins og Bodö/Glimt og Randers.
Keppni í E, F, G og H-riðlum lýkur í kvöld.