Landsliðskonurnar Glódís Perla Viggósdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir eru svo gott sem komnar í átta liða úrslit Meistaradeildar kvenna í fótbolta eftir stórsigur Bayern München á Häcken í Gautaborg í kvöld, 5:1.
Bayern er með 10 stig og á einn leik eftir, Lyon er með 9 stig og á tvo leiki eftir, Benfica er með 4 stig og á tvo leiki eftir en Häcken er með 3 stig og á einn leik eftir. Benfica getur enn slegið Bayern út en þarf þá að vinna Lyon í kvöld og svo Bayern í lokaumferðinni í næstu viku.
Glódís Perla lék allan leikinn í vörn Bayern í kvöld og Karólína kom inn á sem varamaður á 76. mínútu. Diljá Ýr Zomers var varamaður hjá Häcken en kom ekki við sögu.
Jovana Damjanovic skoraði tvö marka Bayern í kvöld, Viviane Asseyi, Linda Dallmann og Lineth Beerensteyn eitt hver en Stina Blackstenius skoraði mark Häcken.