Enska liðið Leicester City missti í kvöld af sæti í útsláttarkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu þegar það tapaði 3:2 fyrir Napoli í hörkuleik á Ítalíu í lokaumferðinni.
Napoli komst snemma í 2:0 en Leicester jafnaði fyrir hlé með mörkum frá Jonny Evans og nýliðanum Kiernan Dewsbury-Hall. Norður-Makedóníumaðurinn Elif Elmas skoraði sitt annað mark í leiknum í byrjun seinni hálfleiks og það reyndist sigurmark Napoli, 3:2.
Spartak Moskva vann Legia Varsjá 1:0 á útivelli og varð í efsta sæti riðilsins með 10 stig og fer beint í 16-liða úrslit. Napoli varð í öðru sæti með 10 stig og fer í 1. umferð útsláttarkeppninnar en Leicester fékk 8 stig í þriðja sæti og fer yfir í 1. umferð Sambandsdeildarinnar eftir áramótin.
Fjórum riðlum af átta í Evrópudeildinni er lokið í kvöld. Auk Spartak Moskva tryggðu frönsku liðin Lyon og Mónakó og þýska liðið Eintracht Frankfurt sér sigra í sínum riðlum og fara beint í 16-liða úrslit.
Auk Napoli enduðu Rangers frá Skotlandi, Real Sociedad frá Spáni og Olympiacos frá Grikklandi, lið Ögmundar Kristinssonar, í öðru sæti riðlanna og fara í 1. umferð útsláttarkeppninnar.
Leicester, Sparta Prag, PSV Eindhoven og Fenerbahce enduðu í þriðja sæti riðlanna og fara yfir í Sambandsdeildina.
Bröndby, Sturm Graz, Legja Varsjá og Royal Antwerp urðu neðst í riðlunum fjórum og hafa lokið keppni.