Ég verð orðinn fínn fyrir jólin

Diego heitinn Maradona og Pelé árið 2016, tveir af þeim …
Diego heitinn Maradona og Pelé árið 2016, tveir af þeim allrabestu í sögu knattspyrnunnar. AFP

Knattspyrnugoðsögnin Pelé hefur legið á sjúkrahúsi í Sao Paulo í Brasilíu síðan á miðvikudag en segir að ekkert sé að óttast og hann verði kominn í fínt stand fyrir jólin.'

Pelé, sem er 81 árs gamall, hefur glímt við veikindi síðustu ár og af og til verið lagður inn á sjúkrahús. Hann gekkst í september undir uppskurð þar sem æxli var fjarlægt úr ristlinum, og var áður skorinn upp vegna meins í blöðruhálskirtli árið 2015. Þá var hann lagður inn á sjúkrahús árið 2019 með þvagfærasýkingu.

„Ég er á sjúkrahúsinu í lokatörn ársins 2021, nýti tækifærið til að gangast undir nýjar rannsóknir og verð því hér í nokkra daga. Hafið ekki áhyggjur, ég er bara að gera mig kláran fyrir jólin!" skrifaði Pelé á Instagram.

Pelé er markahæsti landsliðsmaður Brasilíu frá upphafi en hann skoraði 77 mörk í 92 landsleikjum. Hann er einn af aðeins fjórum knattspyrnumönnum í sögunni sem hefur skorað á fjórum lokamótum HM en hann varð heimsmeistari með Brasilíu 1958, 1962 og 1970 og skoraði sautján ára gamall í úrslitaleik HM árið 1958. Hann var um langt árabil talinn besti knattspyrnumaður heims og er að margra mati enn sá besti í sögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert