SønderjyskE er komið áfram í undanúrslit danska bikarsins í fótbolta eftir sigur á Hvidovre í vítakeppni er liðin mættust í öðrum leik sínum í átta liða úrslitum í kvöld.
SønderjyskE vann fyrri leikinn 1:0 en eftir 38 mínútur var Hvidovre búið að snúa einvíginu sér í vil með tveimur mörkum. Það fyrra gerði Tobias Thomsen, fyrrverandi leikmaður KR og Vals.
Gestirnir í SønderjyskE jöfnuðu á 87. mínútu og skoruðu liðin sitt markið hvort í framlengingu, en áðurnefndur Thomsen jafnaði fyrir Hvidovre á 118. mínútu með sínu öðru marki. Úrslitin réðust því í vítakeppni.
Leikmenn SønderjyskE voru svellkaldir í vítakeppninni og skoruðu úr öllum fimm spyrnum sínum á meðan Hvidovre nýtti þrjár af fimm. Kristófer Ingi Kristinsson lék allan leikinn með SønderjyskE og skoraði í vítakeppninni.