Guðmundur bandarískur meistari

Alexander Callens skoraði úr síðustu vítaspyrnu New York City og …
Alexander Callens skoraði úr síðustu vítaspyrnu New York City og var fagnað innilega af samherjum sínum. AFP

Guðmundur Þórarinsson landsliðsmaður í knattspyrnu varð í kvöld fyrstur Íslendinga bandarískur meistari í karlaflokki þegar lið hans New York City vann Portland Timbers í úrslitaleik MLS-deildarinnar í Portland.

New York komst yfir á 41. mínútu með marki frá Valentin Castellanos og allt stefndi í að það mark myndi duga liðinu til að vinna titilinn.

Staðan var 1:0 þar til á fjórðu mínútu í uppbótartíma þegar Felipe Mora jafnaði fyrir Portland, 1:1. Tveimur mínútum áður hafði Guðmundi verið skipt af velli en hann var í byrjunarliði New York í kvöld.

Ekkert mark var skorað í framlengingu og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar náði New York undirtökunum strax í fyrstu umferð. Portland mistókst að skora úr tveimur fyrstu spyrnum sínum og New York fylgdi því eftir, vann vítakeppnina 4:2 og er þar með bandarískur meistari í fyrsta skipti.

Guðmundur Þórarinsson og félagar fagna marki Valentin Castellanos í úrslitaleiknum …
Guðmundur Þórarinsson og félagar fagna marki Valentin Castellanos í úrslitaleiknum í kvöld. Samherji hans Jesus Medina fékk bjórdós í andlitið í fagnaðarlátunum sem sést vel á myndinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert