Leik Tottenham og Rennes í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta verður ekki frestað eins og til stóð. Leikurinn gat ekki farið fram síðastliðinn fimmtudag vegna kórónuveirusmita í herbúðum Tottenham.
Ekki tókst að finna dagsetningu á þessu ári og hefur UEFA því tekið ákvörðun um að hætta við leikinn. Þar sem Tottenham gat ekki mætt til leiks verður Rennes að öllum líkindum úrskurðaður 3:0-sigur.
Fari svo að Rennes verði úrskurðaður sigur er Tottenham úr leik í Sambandsdeildinni á leiktíðinni, en liðið þurfti á sigri að halda til að eiga möguleika á að fara áfram í útsláttakeppnina.
Tottenham átti að mæta Brighton í ensku úrvalsdeildinni á morgun en leiknum var frestað vegna smitanna.