Lið Arnórs fékk flest verðlaun

Carles Gil í leik með Aston Villa. Hann var besti …
Carles Gil í leik með Aston Villa. Hann var besti leikmaður MLS á árinu 2021. AFP

Þó Guðmundur Þórarinsson og félagar í New York City hefðu staðið uppi sem bandarískir meistarar í knattspyrnu eftir sigurinn á Portland Timbers í úrslitaleik MLS á laugardagskvöldið var það hitt Íslendingaliðið í deildinni sem fékk flest verðlaun í mótslok.

MLS-deildin hefður úthlutað ýmsum verðlaunum og flest féllu þau í skaut New England Revolution, liðs Arnórs Ingva Traustasonar, sem hafði mikla yfirburði í deildakeppninni en tapaði svo fyrir New York City í vítaspyrnukeppni eftir framlengdan leik í undanúrslitum úrslitakeppninnar í Austurdeildinni.

New England Revolution var útnefnt lið ársins en það vann Austurdeildina með 19 stigum meira en næsta lið og 22 stigum meira en New York City sem síðan stóð uppi sem bandarískur meistari.

Arnór Ingvi Traustason í leik með New England Revolution.
Arnór Ingvi Traustason í leik með New England Revolution. AFP

Carles Gil, miðjumaður New England, var útnefndur besti leikmaður deildarinnar. Hann er 29 ára gamall Spánverji sem lék sitt þriðja tímabil með liðinu en spilaði áður m.a. með Deportivo La Coruna, Aston Villa og Valencia. Hann átti m.a. 13 stoðsendingar í deildinni á tímabilinu.

Bruce Arena, þjálfari New England, var útnefndur þjálfari ársins. Hann er orðinn sjötugur og var lengi þjálfari bandaríska landsliðsins og átti góða endurkomu hjá meistaraliði Austurdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert