Draga þarf upp á nýtt til sextán liða úrslitanna í Meistaradeild karla í fótbolta þar sem mistök voru gerð í drættinum í morgun.
Þegar Villarreal hafði verið dregið sem fyrra liðið í annarri viðureign í drættinum, var Manchester United dregið sem mótherji. Það var hinsvegar ekki mögulegt því liðin voru saman í riðli.
Þar með voru nýir andstæðingar dregnir fyrir Villarreal og þá kom Manchester City upp úr skálinni.
Svo virðist sem kúlan með nafni Manchester United hafi ekki verið komin á réttan stað þegar næsti leikur var dreginn, þar sem Atlético Madrid dróst gegn Bayern München. Manchester United átti að vera einn af mögulegum mótherjum Atlético.