Amanda yfirgefur Vålerenga

Amanda Andradóttir í leik með íslenska landsliðinu í október.
Amanda Andradóttir í leik með íslenska landsliðinu í október. mbl.is/Unnur Karen

Amanda Andradóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur náð samkomulagi um starfslok við norska félagið Vålerenga.

Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu félagsins, þar sem segir að báðir aðilar hafi verið sammála um að ljúka samstarfinu.

Amanda er aðeins 17 ára gömul og skoraði fjögur mörk í 20 leikjum með Vålerenga á sínu eina tímabili með liðinu sem lauk í haust.

„Við vorum sammála um að láta leiðir skilja og óskum Amöndu góðs gengis á ferli sínum í framhaldinu,“ sagði Egil Ödegaard, yfirmaður íþróttamála hjá félaginu í samtali við heimasíðu þess.

433.is greindi frá því um helgina að Amanda myndi yfirgefa Noreg og reyna fyrir sér í sterkari deild, þó ekki hafi komið fram hvaða deild það væri sem um ræðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert