Svava Rós Guðmundsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, hefur náð samkomulagi við franska félagið Bordeaux um að rifta samningi sínum við félagið.
Hún staðfesti fregnirnar í samtali við Fótbolta.net í dag.
Svava Rós, sem er 26 ára sóknarmaður, er búin að vera úti í kuldanum hjá Bordeaux á tímabilinu og lítið sem ekkert komið við sögu.
Á þeim tíma hefur hún staðið sig vel með íslenska landsliðinu og skoraði til að mynda eitt marka liðsins í 4:0-sigri gegn Tékklandi í undankeppni HM í haust.
Eftir þann landsleik ræddi Svava Rós við fréttamenn á Teams-fjarfundi og sagðist vitanlega hafa viljað spila meira á tímabilinu.
„Já auðvitað. Þetta er eiginlega búið að vera upp og niður síðan ég kom þangað. Ég kom og meiddist svo. Svo skiptum við um þjálfara og eftir það hef ég lítið sem ekkert verið að spila.
Stundum er það bara þannig að þjálfarinn fílar mann ekki. Ég hef talað við hann og það er nokkurn veginn ekkert sem ég get gert til þess að breyta hans skoðun, svoleiðis er það bara,“ sagði hún.
Svava Rós sagði þjálfarann þá ekki hafa gefið sér neina ástæðu fyrir því að hann vildi ekki nota hana. „Nei, engin ástæða. Hann kemur þarna inn og er bara þannig séð búinn að mynda sér skoðun áður en hann kemur. Við erum ekki búin að vera með hann í langan tíma, hann byrjaði um miðjan ágúst.“
Spurð hvort hún þyrfti þá ekki að finna sér nýtt lið í janúar sagði Svava Rós: „Jú. Ég ætla bara að sjá til hvernig þetta verður núna í nóvember og desember en ég vil fá að spila þannig að ég verð bara að skoða hvaða möguleikar eru í boði.“
Þar sem staða hennar hefur ekkert breyst á þessum tíma sá Svava Rós því sæng sína einfaldlega upp reidda og leitar nú að nýju félagi.