Gammurinn ætlar ekki að aðhafast frekar

Ekki gekk þrautalaust að draga í gær en ekki var …
Ekki gekk þrautalaust að draga í gær en ekki var við Andrey Arshavin að sakast í þeim efnum. AFP

Real Madríd mun ekki aðhafast frekar varðandi útfærsluna á drættinum til 16-liða úrslitanna í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu. 

Eins og greint var frá í gær þurfti að ógilda dráttinn og draga aftur. Real Madríd hafði dregist á móti Benfica en dróst síðar á móti París Saint-Germain. 

Fulltrúar Real Madríd óskuðu eftir því að viðureign Real Madríd og Benfica væri látin standa því liðin komu fyrst upp úr skálinni. Mistökin sem síðar urðu höfðu því ekki áhrif á þá viðureign. 

Því var hafnað og dregið alfarið upp á nýtt. Emilio Butragueno er nú starfsmaður Real Madríd og var hann spurður um hvort Real myndi aðhafast frekar. Segir hann að svo verði ekki þótt félagið hafi orðið fyrir vonbrigðum með vinnubrögðin hjá UEFA. 

Butragueno átti flottan feril hjá Real Madríd á níunda áratugnum og hlaut viðurnefnið Gammurinn. Frægðarsól hans var líklega hæst á lofti þegar hann skoraði fjögur mörk fyrir Spánverja gegn Dönum í 16-liða úrslitum á HM 1986. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert