Hallbera Guðný Gísladóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er á leið til Kalmar, nýliða í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu kvenna.
Hallbera lék með AIK, sem var einnig nýliði í deildinni, á liðnu tímabili. Var hún einn lykilmanna liðsins sem stóð sig vel og var aldrei í fallbaráttu þrátt fyrir að vera nýliði.
Hallbera samdi aðeins til eins árs hjá AIK eftir að hafa komið frá Val fyrir ári síðan og er því laus allra mála.
Fótbolti.net greindi frá því í dag að næsti viðkomustaður hennar sé í Kalmar, en liðið hafnaði í öðru sæti sænsku B-deildarinnar á liðnu tímabili og komst þar með beint upp í úrvalsdeildina, en þrjú efstu lið deildarinnar fóru beint upp.
Hallbera, sem hefur einnig leikið með Piteå og Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni, mun hitta fyrir annan íslenskan leikmann, Andreu Thorisson, sem hefur leikið með Kalmar undanfarin tvö tímabil.