Alfons Sampsted varð á sunnudaginn fimmti Íslendingurinn í sögunni til að verða norskur meistari í knattspyrnu oftar en einu sinni á ferlinum.
Hann lauk þá sínu öðru tímabili með Bodö/Glimt og í bæði skiptin hefur landsliðsbakvörðurinn unnið meistaratitilinn með liðinu. Bodö/Glimt vann þá Mjöndalen 3:0 í lokaumferðinni og fékk þremur stigum meira en helstu keppinautarnir í Molde.
Alfons á enn langt í að ná sigursælasta Íslendingnum, Árna Gauti Arasyni, fyrrverandi landsliðsmarkverði, sem varð norskur meistari sex ár í röð með Rosenborg og krækti síðan í sjöunda titilinn sem markvörður Vålerenga.
Matthías Vilhjálmsson vann titilinn fjögur ár í röð með Rosenborg og Hólmar Örn Eyjólfsson tvisvar, og þá varð Guðbjörg Gunnarsdóttir tvö ár í röð norskur meistari í kvennaflokki með Lilleström.
Nánari umfjöllun um er að finna í Morgunblaðinu í dag og þar má sjá alla Íslendinga sem orðið hafa Noregsmeistarar í knattspyrnu.