Af og frá að Afríkukeppninni verði aflýst

Afríkukeppnin mun fara fram í Kamerún í janúar.
Afríkukeppnin mun fara fram í Kamerún í janúar. AFP

Afríska knattspyrnusambandið hefur gefið það út að fregnir af mögulegri aflýsingu eða frestun Afríkukeppninnar í Kamerún í janúar 2022 séu á sandi byggðar.

RMC Sport greindi frá því í morgun að undanfarið hafi það verið rætt innan Afríska knattspyrnusambandsins hvort þörf sé á að aflýsa mótinu vegna skipulagsörðugleika, ekki síst í tengslum við kórónuveirufaraldurinn og nýjasta afbrigði veirunnar, Ómíkron.

Í harðorðri yfirlýsingu frá sambandinu sagði hins vegar að þetta væru „falsfréttir,“ „lygar“ og að möguleikinn á að fresta eða hætta við keppnina „hafi aldrei verið ræddur“.

Undirbúningur heldur þess í stað áfram í Kamerún og samkvæmt áætlun hefst Afríkukeppnin þann 9. janúar næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert