Knattspyrnukonan Amanda Andradóttir er gengin í raðir sænska félagsins Kristianstad, þar sem hún mun hitta fyrir aðalþjálfarann Elísabetu Gunnarsdóttur.
Amanda fékk samningi sínum rift við norska félagið Vålerenga í gær eftir eitt tímabil með því og hefur hún nú skrifað undir tveggja ára samning við Kristianstad.
„Ég held að þetta sé rétt skref fyrir mig að taka núna. Sænska deildin er góð og þar hefur Kristianstad sýnt góða frammistöðu. Ég hef verið að heimsækja klúbbinn og hrifist mjög af því sem ég hef séð.
Ég er leikmaður með mikinn metnað og Kristianstad er sömuleiðis með mikinn metnað. Ég hlakka til að fá Elísabetu sem þjálfara, ég held að ég geti lært mikið af henni og verið hluti af leikmannahópi með virkilega góðum fótboltamönnum. Ég hlakka til að verða hluti af Kristianstad,” sagði Amanda í samtali við heimasíðu félagsins.
Sif Atladóttir yfirgaf Kristianstad eftir síðasta tímabil, þar sem liðið hafnaði í þriðja sæti í sænsku úrvalsdeildinni og vann sér þannig inn Meistaradeildarsæti, og Sveindís Jane Jónsdóttir sneri aftur til Wolfsburg eftir að hafa leikið á láni hjá Kristianstad á liðnu tímabili.
Því stóð Elísabet skyndilega frammi fyrir því að vera ekki með neinn íslenskan leikmann í sínum röðum. Hin 17 ára gamla Amanda, sem verður 18 ára á laugardaginn, hefur nú leiðrétt það og er Elísabet spennt fyrir komu þessa efnilega leikmanns.
„Amanda er mjög spennandi leikmaður sem á möguleika á því að þróast mikið. Þrátt fyrir ungan aldur er hún mjög þroskuð í leik sínum, með góða tilfinningu fyrir leiknum, frábæra tækni og getur skorað mörk.
Hún er með mjög skemmtilegan leikstíl sem ég tel að áhorfendur muni kunna vel að meta, sagði Elísabet í samtali við heimasíðu Kristianstad.