Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Þórarinsson leitar sér nú að nýju félagi eftir að samningur hans við Bandaríkjameistara New York City var ekki framlengdur.
Guðmundur átti ekki fast sæti á ferli sínum hjá New York þrátt fyrir að standa sig iðulega vel þegar hann fékk tækifærið. Til að mynda kom hann inn á sem varamaður og lagði upp mark í bæði undanúrslitaleik og úrslitaleik Austurdeildarinnar á þessu tímabili.
Honum var launað með byrjunarliðssæti í úrslitaleiknum um meistaratitilinn gegn Portland, sem vannst að lokum í vítaspyrnukeppni, en nú er tveggja ára dvöl hans í stóra eplinu á enda.
Guðmundi, sem er 29 ára gamall, er því frjálst að róa á önnur mið. Á atvinnumannsferli sínum hefur hann auk New York City leikið með Rosenborg og Sarpsborg í Noregi, Norrköping í Svíþjóð og Nordsjælland í Danmörku.
Hann á 12 A-landsleiki að baki fyrir Íslands hönd, þar af sjö á þessu ári.