Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var á skotskónum í 4:0-stórsigri Bayern München gegn Benfica í D-riðli Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu í Þýskalandi í kvöld.
Karólína Lea kom þýska liðinu yfir á 26. mínútu en miðjumaðurinn lék allan leikinn á miðsvæðinu hjá Bayern München líkt og Glódís Perla Viggósdóttir gerði í hjarta varnarinnar hjá þýska liðinu.
Landsliðskonurnar hafa ekki átt fast sæti í liði Bæjara á tímabilinu en Karólína hefur aðeins komið við sögu í einum leik í þýsku 1. deildinni á tímabilinu á meðan Glódís Perla hefur komið við sögu í tíu leikjum með liðinu.
Bayern München var fyrir leikinn komið áfram í átta liða úrslit keppninnar en liðið endaði með 13 stig í öðru sæti riðilsins á meðan Benfica endaði með 4 stig í þriðja sætinu en Eyjakonan Cloé Lacasse lék allan leikinn í liði Benfica.
Á sama tíma vann Lyon 4:0-stórsigur gegn Häcken í Frakklandi en Sara Björk Gunnarsdóttir er í barneignarleyfi hjá Lyon. Diljá Ýr Zomers var ónotaður varamaður hjá Häcken.
Lyon lýkur keppni í efsta sæti riðilsins með 15 stig en Häcken endaði með 3 stig í neðsta sætinu.