Knattspyrnumaðurinn Alfons Sampsted varð á sunnudaginn Noregsmeistari með félagsliði sínu Bodö/Glimt í annað sinn á tveimur árum.
Bakvörðurinn, sem er 23 ára gamall, gekk til norska félagsins frá Norrköping í Svíþjóð í febrúar 2020 og skrifaði hann undir þriggja ára samning við Bodö/Glimt.
Alfons hefur verið lykilmaður í liði Bodö/Glimt undanfarin tvö tímabil en hann lék 29 af 30 deildarleikjum liðsins á tímabilinu.
„Ég er mjög ánægður með þennan árangur og það var virkilega sætt að ná að landa þessu í lokaleik tímabilsins,“ sagði Alfons í samtali við Morgunblaðið.
„Við unnum deildina með frekar miklum yfirburðum í fyrra þegar það voru einhverjar fimm umferðir eftir af tímabilinu. Þetta var öðruvísi í ár enda réðust úrslitin í lokaumferðinni. Mér leið samt aldrei eins og við værum að fara að missa titilinn í hendurnar á einhverjum öðrum. Allan tímann vorum við með örlögin í eigin höndum ef svo má segja og þótt við höfum verið að tapa stigum í einhverjum leikjum undir restina fann ég aldrei fyrir neinu stressi innan leikmannahópsins. Spilamennskan var heilt yfir mjög góð og við vissum að ef við héldum áfram að spila eins og við erum vanir myndu úrslitin falla með okkur á endanum, sem varð svo raunin,“ sagði Alfons en Bodö/Glimt endaði með 63 stig í efsta sæti deildarinnar, þremur stigum meira en Molde, sem hafnaði í öðru sæti.
Eins og Alfons kom sjálfur inn á var tímabilið í ár frábrugðið tímabilinu í fyrra enda kom Bodö/Glimt inn í leiktíðina sem ríkjandi meistari og liðið sem allir vildu vinna.
„Tímabilið 2019 enduðum við í öðru sæti og önnur lið vissu því hvað við gátum en á sama tíma vorum við kannski ekki beint liðið sem allir vildu vinna. Við náðum strax frábæru flugi á tímabilinu 2020 og það tókst í raun aldrei neinu liði að stoppa okkur þannig séð. Við fundum það strax, farandi inn í þetta tímabil, að við vorum liðið sem allir vildu vinna. Við fundum líka fyrir mikilli virðingu í okkar garð.
Mörg lið einfaldlega umbyltu taktíkinni hjá sér þegar þau mættu okkur. Lið sem voru kannski vön að spila blússandi sóknarbolta lögðust hálfpartinn í vörn og voru einfaldlega að reyna að halda marki sínu hreinu gegn okkur. Þetta tímabil var því mun erfiðara að mínu mati og meira krefjandi en á sama tíma lærði maður heilan helling og því óhætt að segja að maður hafi öðlast dýrmæta reynslu í ár.“
Patrick Berg, annar fyrirliði Bodö/Glimt, var útnefndur besti leikmaður deildarinnar á mánudaginn en Noregsmeistararnir þurftu að glíma við talsverð meiðsli lykilmanna á leiktíðinni.
„Eitt af því sem við gerðum mjög vel var að við héldum mjög fast í okkar hugmyndafræði allan tímann og það er þjálfaranum okkar Ketil Knutsen að þakka. Þegar þú lendir í því í mörgum leikjum að spila á móti liðum sem liggja aftarlega og freista þess að beita skyndisóknum þá kemur það einhvern veginn sjálfkrafa hjá manni að hugsa í lausnum, bæði utan og innan æfingasvæðisins, og við lögðum í raun aldrei neitt sérstaka áherslu á það hvernig best væri að opna andstæðinga okkar á æfingasvæðinu.
Þetta tímabil einkenndist líka aðeins af því að við misstum marga lykilmenn í meiðsli. Við misstum báða kantmennina okkar og vinstri bakvörðinn í meiðsli. Sömuleiðis báða fyrirliðana okkar, þá Ulrik Saltnes og Patrick Berg, þannig að þjálfarinn þurfti að hreyfa mun meira við liðinu í ár en í fyrra. Við þurftum líka að læra að elska það að spila gegn liðum sem vörðust aftarlega og lágu vel til baka en það var líka ný og skemmtileg áskorun.“
Bodö/Glimt lék í norsku B-deildinni árið 2017 en uppgangur knattspyrnuliðsins í bænum, þar sem um 50.000 manns búa, hefur verið lyginni líkastur á undanförnum árum.
„Þjálfarateymið á mjög stóran þátt í því sem hefur verið að gerast hérna undanfarin ár. Blandan í leikmannahópnum er ótrúlega góð og æfingarnar hérna eru mjög vel skipulagðar. Það er lögð rík áhersla á að leikmenn bæti sig og hver einasti æfingadagur nýttur mjög vel. Við hugsum ekki mikið um framtíðina heldur einbeitum okkur að því að lifa algjörlega í núinu og það er stór ástæða þess að leikmannahópurinn hefur blómstrað líkt og hann hefur gert.“
Viðtalið við Alfons má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.