Afríska knattspyrnusambandið gæti á næstu dögum tilkynnt að Afríkukeppninni í knattspyrnu karla, sem á að fara fram í Kamerún í janúar, verði aflýst.
Franski íþróttamiðillinn RMC Sport greinir frá þessu.
Þar segir að líkurnar á aflýsingu keppninnar hafi aukist umtalsvert á síðustu vikum. Skipulagsörðugleikar í tengslum við kórónuveirufaraldurinn og nýtt afbrigði veirunnar, Ómíkron, hafa þar mikið að segja og ekki hjálpar til að í Afríku er lægsta hlutfall bólusettra á heimsvísu þegar litið er til heimsálfa.
Auk þess stendur afríska knattspyrnusambandið frammi fyrir megnri óánægju enskra félaga, sem verða án fjölda lykilmanna sinna þegar þétt er spilað í janúar.
Þeir afrísku leikmenn sem verða valdir í landsliðshópa þjóða sinna fyrir keppnina þurfa auk þess að fara í sóttkví við heimkomuna til Bretlands samkvæmt reglum stjórnvalda þar í landi, en Ómíkrón-afbrigðið herjar nú á Bretlandseyjar svo um munar.
Afríska knattspyrnusambandið hefur enn ekki tekið neina endanlega ákvörðun samkvæmt RMC Sport en íhugar nú alvarlega að aflýsa Afríkukeppninni.